Þó við vitum að orkunýting og endurnýjanleg orka séu lykilatriði í baráttunni gegn loftslagsbreytingum til langs tíma litið eru þau líka mikilvægur hluti af lausninni á orkukreppunni sem nú gengur yfir.

Werner Hoyer, forstjóri Fjárfestingarbanka Evrópu

André Küüsvek, forstjóri Norræna fjárfestingarbankans

Græn umskipti eru lífsnauðsynleg til að leysa orkuvandamál Evrópu.

Stríð Rússa í Úkraínu ýtti Evrópu út í orkukreppu. Þörfin á aðgerðum er brýn. Evrópa verður að efla sjálfstæði sitt í orkumálum og hraða umskiptum yfir í hagkerfi með lága kolefnislosun.

Það verður að efla orkunýtingu – í atvinnulífinu og heima fyrir – ásamt endurnýjanlegum orkugjöfum núna strax. Atvinnulífinu hefur tekist að draga úr gasnotkun hraðar en gert var ráð fyrir og mörg lönd eru með langar leiðslur af endurnýjanlegum orkuverkefnum og tengingum við raforkunetið sem bíða eftir því að komast á framkvæmdarstig. Því meira sem við fjárfestum í hreinni orku í dag því minna munum við hita plánetuna og vera háð dýrri innfluttri orku frá óáreiðanlegum og jafnvel illviljuðum framleiðslulöndum á morgun.

Þó við vitum að endurnýjanleg orka sé lykilatriði í baráttunni gegn loftslagsbreytingum til langs tíma litið er hún líka mikilvægur hluti af lausninni á orkukreppunni sem við nú stöndum frammi fyrir. Við verðum að efla sjálfstæði okkar í orkumálum með sjálfbærum hætti.

Innrás Rússa hefur minnt okkur á mikilvægi þess að tryggja öryggi okkar í orkumálum. Í einföldu máli snýst orka um öryggi og kolefnisminnkun um sjálfstæði okkar.

Stefna stjórnvalda í þessum málum birtist í fjölmörgum nýlegum verkefnum, þar á meðal Versalaályktununum um orkumál, REPowerEU-áætlun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og nýlegri Marienborg-yfirlýsingu Eystrasaltsríkjanna.

Áskorunin verður að viðhalda staðfestu okkar þegar við förum að finna fyrir kostnaði orkukreppunnar, sem gengur yfir, og skaðar atvinnulífið og heimili og veldur samdrætti í hagkerfum. Samfélagið verður að tryggja réttlát umskipti á sama tíma og byrðin vegna hærri orkuverða eykst.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins áætlar að til að Evrópa nái sjálfstæði frá rússnesku gasi sé þörf á viðbótarfjárfestingu í orkunýtni, endurnýjanlegri orku og raforkukerfum upp á 270 milljarða evra fram til ársins 2030.

Alþjóðlegar fjármálastofnanir eins og Norræni fjárfestingabankinn (NIB) og Fjárfestingabanki Evrópu (EIB) hafa mikilvægu hlutverki að gegna á krepputímum. Eftir því sem lánveitendur verða varkárari og tregari til að veita lán þurfa stofnanir eins og okkar að vera í viðbragðsstöðu og fylla í eyðurnar. Með háu lánshæfismati og stöðugum fjármögnunargrunni sjáum við mikilvægum verkefnum fyrir langtímafjármögnun. Það stuðlar að fjárfestingum einkaaðila, jafnvel þegar dagarnir eru hvað dimmastir.

Samstarf milli stofnana einstakra ríkja, svæða og ESB er mikilvægt. Bæði Evrópski fjárfestingarbankinn og Norræni fjárfestingarbankinn eiga langan feril að baki í fjármögnun stórra verkefna og samvinnu. Á síðustu fimm árum hefur samstarfið skilað um 10 milljörðum í samfjármögnuðum verkefnum, en meira þarf að koma til.

Sameiginleg verkefni okkar spanna margar greinar, allt frá samgöngumannvirkjum til skóla og sjúkrahúsa. Í Lettlandi hjálpuðum við til við nýja hjáleið sem mun beina umferð frá þéttbýlum svæðum Kekava að nýrri leið til að draga úr mengun og umferðarteppum og auka umferðaröryggi. Í Espoo í Finnlandi hjálpuðum við til við að fjármagna byggingu átta skóla og dagvistarmiðstöðva sem munu þjóna 4000 börnum og ungmennum.

Í orkugeiranum hafa stofnanirnar okkar tvær lagt fé til margra mikilvægra verkefna, þar á meðal vindorkuvera, háþróaðra rafgeyma og orkutenginga á milli landa. Bygging stórvirkrar lithium-ion rafhlöðuverksmiðju Northvolt í Norður-Svíþjóð mun skila heimsins grænustu lithium-ion rafhlöðu með mjög takmörkuðu CO2-fótspori. Stuðningur við Vestas Wind Systems í Danmörku er mikilvægt skref í átt að umskiptum úr hefðbundnum orkugjöfum yfir í endurnýjanlega orkugjafa og til að draga úr loftslagsbreytingum. Slík verkefni stuðla ekki aðeins að samkeppnishæfni og sjálfræði Evrópu, heldur einnig að grænum umskiptum í heiminum öllum með rannsóknum og þróun.

Á þessari neyðarstund finnum við fyrir ábyrgð okkar og erum tilbúin að gera meira.  Evrópski fjárfestingarbankinn og Norræni fjárfestingarbankinn hafa einsett sér að efla samstarf sitt, einkum á Eystrasaltssvæðinu. Það þýðir hreina og örugga orku fyrir lítil fyrirtæki og sveitarfélög og fyrir nýsköpun. Enda gerir allt slíkt framtíð okkar sjálfbærari.